Einu sinni var...

"Gríman fellur", hljómar brjálæðislega dramatískt ekki satt? Hljómar næstum eins og fyrirsögn í DV, sem er svo alveg innihaldslaus.

Þetta blogg á ekki að vera einhver dramatík, síður en svo. En oft liggur mér margt á hjarta sem mér þykir gott að skrifa frá mér. Ég er alveg ný í þessum heimi, bloggheimi og á eftir að þreifa mig svolítið áfram í þessu, hversu miklu og persónulegu ég deili o.s.frv. 

En mér hefur fundist það reynast mér mjög "theraputic" (hvað er það á íslensku)? að skrifa hvernig mér líður og hvernig ég tekst á við hlutina, merkilegt hvar það gerir fyrir mann, a.m.k. mig.

Ég biðst fyrirfram afsökunar á því ef ég sletti mikið, og/eða kem með orð sem eru hreinn tilbúningur. Ég er búin að búa erlendis í nokkur ár og þó svo við tölum íslensku á heimilinu, þá höfum við öll tapað einhverju úr orðaforða okkar. Ég þarf reglulega að spyrja manninn minn "er þetta orð"?  

En lítillega um mig. Ég er fædd árið 1980, er gift og hef fætt af mér 2 börn. Maðurinn minn byrjaði í þessu á undan mér og á 2 börn fyrir. En þau eru fullorðin og búa ekki hjá okkur, þó svo stelpan hafi flust út til okkar, en hún nældi sér í kærasta og býr með honum, ekki langt frá okkur.

Ég á ættir að rekja til Snæfellsness, n.t.t. Rauðkollsstaða, en ég ólst upp í Hafnarfirði. Bernskuár mín, í skóla, voru ekki skemmtileg og sum hver þokukennd. Ég var aldrei vinsæli krakkinn, en gerði flest til þess að ganga í augun á þeim sem það voru, í von um að verða samþykkt. Það tókst ekki betur en svo að ég á ekki í neinu sambandi við þetta fólk í dag, þó ég sé ekki bitur á neinn hátt og er ekkert illa við neinn, mörg þeirra eru t.a.m. Fésbókarvinir mínir. En við áttum bara ekki samleið. En það átti bara við ótrúlega marga og gerir enn. Ég á ekki samleið með öllum, veit ekki hvað það er. Kannski er ég bara leiðinleg, má vera. Oftast hugsa ég ekkert út í það að ég hef verið vinalaus/lítil alla ævi, en suma daga svíður það rosalega mikið, ekki síst þegar ég sé myndir á Fésbókinni af vinkonuhópum fara í húsmæðraorlof, vera í fjölmennum saumaklúbbum, ganga á fjöll saman og hvaðeina. Þá finn ég fyrir einmannaleikanum.

Mér gekk aldrei sérstaklega vel í skóla, enda fannst mér ég vera heimsk. Ég ólst upp við það að finnast ég vera heimsk, þar til að árið 2013, að ég var greind með ADHD án ofvirkni. Mikill athyglisbrestur og alveg á mörkum þess að vera greind með OCD líka. Ég brotnaði saman í lokaviðtalinu þar sem mér var kynnt greiningin. "Er ég þá ekki vitlaus" var það fyrsta sem ég sagði.

Ég prófaði lyf, en mér fannst þau ekki gera neitt fyrir mig. Hef ekki reynt önnur lyf síðan þá.

En það breytist fljótlega. 

Fyrir u.þ.b. þrem árum, eða fjórum, greindist ég svo með vefjagigt. Hún hrjáir fólk á mismunandi hátt en ég verð undirlögð af verkjum í handleggjum, úlnliðum, fingrum, ökklum, hnakka og herðum. Eftir margskonar tilraunir, fann læknirinn lyf sem virkar fyrir mig. Svo oftast er ég alveg ágæt, en ég berst sífellt við síþreytu og orkuleysi, sem og svefnleysi.

Eins og þeir sem þekkja til vita, reyna veikindi ekki bara líkamlega á fólk, heldur andlega líka. En ég hef verið þunglynd bara frá því ég var krakki. Stóð alltaf illa félagslega og þar byrjaði þetta. Svo fékk þetta bara að "blómstra" í gegn um árin. En það er mikilvægt að þekkja veikleika sína og viðurkenna veikindi sín. Andlegu og líkamlegu veikindi mín meiða mig jafn mikið, eru jafn erfið viðureignar og jafn mikilvæg. Afhverju á ég þá eitthvað að vera feimnari að tala um andlegu veikindin? Þetta er tabú sem mér finnst samt vera á undanhaldi, vonandi heldur fólk áfram að opna sig með þetta.

En ég held ég láti þetta duga sem fyrstu færslu. Ég veit að hún er rosa löng, ætli nokkur maður nenni að lesa svona langt. 

 


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband