Börn og orkudrykkir

Ég vinn í ónefndri matvöruverslun í Noregi. Hér, eins og annarsstaðar er neysla orkudrykkja gífurleg, meiri en mig hefði grunað. En látum vera að fullorðið fólk sulli þessu ógeði í sig (þar á meðal ykkar einlæg, af og til), en þá fer það fyrir brjóstið á mér, jafnvel bæði, að sjá börn og unglinga drekka þetta í miklu óhófi. Allt niður í 9 ára börn eru að versla sér þessa drykki. Afhverju? Jú, þetta er töff! Þau hafa ekkert vit á því hvað þetta inniheldur, hvaða viðbjóð þau eru að setja í kroppinn sinn. Þau teyga undir hálfan líter af koffínsprengju og líkamar þeirra eru engan veginn tilbúnir fyrir þetta. Ég las m.a. frétt um þetta í morgun, þar sem 2 sænsk ungmenni höfðu verið flutt á sjúkrahús vegna einkenna sem líktust helst hjartaáfalli. Við skoðun kom í ljós, of mikið magn koffíns í blóði þeirra.

Sjálf hef ég upplifað þetta, þá 18 ára, á þrískiptum vöktum í sumarstarfi. Lá ég þá hrædd í rúminu og vissi ekki hvað var að gerast, en fannst að hjarta mitt ætlaði að springa.

Ef mig minnir rétt, þá stendur á umbúðum þessara drykkja að það sé ekki mælt með því að börn undir 16 ára neyti þeirra. En ég held að það sé svo undir hverjum kaupmanni komið, hvort hann nýtir sér þetta og setji aldurstakmark. En hvaða kaupmaður vill minnka innkomu sína? 

Hálfs líters dós af orkudrykk, getur innihaldið allt að 160 mg. af koffíni! Settu það ofan í 9 ára barnið þitt! Útkoman verður ekki góð.

Þó það séu oftast krakkarnir sjálfir sem kaupa þessa drykki, þá eru einstaka foreldrar sem gera það líka. Það finnst mér með ólíkindum. Mér finnst líka með ólíkindum að sjá foreldra kaupa gos fyrir börn á leikskólaaldri, en það er önnur færsla út af fyrir sig.

Krakkar hér eru margir hverjir komnir með eigið debetkort 10 ára gömul. Foreldrar leggja einhverja peninga inn á kortið og fá svo eflaust lítið að vita í hvað peningarnir fara, ef þau þá spyrja. Hvenær hætta foreldrar að bera ábyrgð? Hvenær eru börnin komin með þroska og skynsemi til að ákveða sjálf hvernig þau eiga að nota peninga og hvað þau eiga að setja ofan í sig?

Ég segi fyrir mitt leyti, að mér finnst börn ekkert hafa með kort að gera fyrr en við 14 ára aldur. Og ég er á því að setja eigi a.m.k. 16 ára aldurstakmark á sölu orkudrykkja. 

En því skal hinsvegar haldið til haga, að álit mitt, þarf ekki að endurspegla mat þjóðarinnar! wink

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband