Rangir áhrifavaldar.

Ég las einhversstaðar grein fyrir u.þ.b. 2 vikum, um áhrifavalda í íslensku samfélagi og spurt var hvort maður þekkti fólkið.

Ég held að ég hafi ekki þekkt neinn. Allt í lagi, kannski ekki alveg að marka, þar sem ég hef búið erlendis í á fimmta ár, en ég fylgist nú eitthvað með því sem gerist á Íslandi. Mig minnti að fyrirsögnin hafi verið "Íslenskir áhrifavaldar á samfélagsmiðlum", eða eitthvað í þá áttina en mér reynist býsna erfitt að finna þessa grein. En, við að renna í gegn um myndir af þessum svokölluðu "áhrifavöldum", þá blöskraði mér eiginlega. Mikið af, eflaust hæfileikaríkum konum, voru þarna á mynd sem flestar hafa tekið sjálfar og mér fannst þær flestar stilla sér upp eins og þær væru að sitja fyrir í erótísku tímariti. "Duckface", brjóstum þrýst út, maginn inn, bogið bak og rassinn út. Eins og þetta sé það eina sem þær hafi til brunns að bera.

Ohh... ég varð svo pirruð. Þetta er EKKI áhrifavaldurinn sem ég vil hafa í lífi minna barna. Þar sem verið er að rembast við að passa inn í eitthvað glanstímarit, allar þurfa að vera með brjóst í minnst C skál, ekta eða gervi, þrýstnar varir, annars er ekkert mál að bara sprauta í varirnar o.s.frv. Og nú virðist nýjasta "trendið" vera að opinbera sig um allar fegrunaraðgerðirnar sem fólk hefur farið í og sýna gervilega ýkt andlit. Sumt af þessu fólki finnst mér frekar eiga heima í þáttum sem heita "Botched Up". Mér finnst þetta svo sorgleg þróun.

Tölvunotendur eru sífellt að verða yngri og yngri. Auglýsingar með "eye catching" myndum stökkva upp á skjáinn, börn heillast, smella og litlir svampheilar drekka í sig upplýsingar um það hvernig maður á að vera, á að gera, á að borða, á ekki að borða, nýjustu kúrana og "trendin" í dag og allt eftir því.

Ungar stelpur keppast við að passa inn í þetta A4 form sem samfélagið hefur sniðið þeim. Föt eru orðin svo efnislítil að það væri nærri lagi að segja þau sem bætur heldur en heila flík. Pils og kjólar eru oft rétt svo í snípssídd. Vonandi þurfa þessar konur aldrei að beygja sig eftir neinu. Hvað er markmiðið hér? Svo heyrir maður, æj svona er þetta bara í dag, svona er þróunin blah blah blah... Við sjáum líka hvernig þróunin í umhverfismálum er, það þýðir ekki að við eigum bara að spila með og henda öllu plasti í sjóinn! Þetta þarf að stoppa! Hvernig? "Who am  I to know"?

#Barnaskref! T.a.m. hefur dóttir mín mjög gaman af Youtube. Ég setti læsingu á það, svo að hún hefur ekki aðgang að efni sem þykir of gróft, dónalegt o.s.frv. Tónlistarmyndbönd eru einn svakalegur áhrifavaldur og geta farið langt yfir velsæmismörk.

Fyrst var hún fúl yfir því að hún sæi ekki lengur hin og þessi tónlistarmyndbönd en svo var það gleymt og grafið. Nú er það bara "Just Dance" og dansað og sungið, á milli þess sem hún er úti.

#Verum fyrirmyndin. Barn sem horfir á foreldri sitt líta í spegil og bölsótast yfir eigin útliti, tekur þá litlu aðgerð sem fullorðni einstaklingurinn man svo varla eftir og vistar þetta í minni sínu.

#Ekki hugsa um hvað aðrir eru að hugsa. Leiktu þér og sjáðu barnið þitt blómstra af gleði. Dóttir minni þykir fátt fyndnara en þegar ég sæki hana í skólann og frá sitthvorum endanum af leikvellinum byrjum við að valhoppa á móti hvor annarri, 6 ára barnið og 38 ára konan! Vinkonum hennar þykir líka mjög fyndið þegar ég hoppa inn í "snú-snú". Maður er aldrei of gamall til að leika sér! 

Ég er ekki með neina töfralausn, en ég kann nokkur skref og ef allir kunna nokkur skref og deila því með hinum, þá gæti það verið byrjun á betri lífsleið fyrir börnin okkar.

Vertu memm!

 

14-year-old-teens-then-vs-now


Börn og orkudrykkir

Ég vinn í ónefndri matvöruverslun í Noregi. Hér, eins og annarsstaðar er neysla orkudrykkja gífurleg, meiri en mig hefði grunað. En látum vera að fullorðið fólk sulli þessu ógeði í sig (þar á meðal ykkar einlæg, af og til), en þá fer það fyrir brjóstið á mér, jafnvel bæði, að sjá börn og unglinga drekka þetta í miklu óhófi. Allt niður í 9 ára börn eru að versla sér þessa drykki. Afhverju? Jú, þetta er töff! Þau hafa ekkert vit á því hvað þetta inniheldur, hvaða viðbjóð þau eru að setja í kroppinn sinn. Þau teyga undir hálfan líter af koffínsprengju og líkamar þeirra eru engan veginn tilbúnir fyrir þetta. Ég las m.a. frétt um þetta í morgun, þar sem 2 sænsk ungmenni höfðu verið flutt á sjúkrahús vegna einkenna sem líktust helst hjartaáfalli. Við skoðun kom í ljós, of mikið magn koffíns í blóði þeirra.

Sjálf hef ég upplifað þetta, þá 18 ára, á þrískiptum vöktum í sumarstarfi. Lá ég þá hrædd í rúminu og vissi ekki hvað var að gerast, en fannst að hjarta mitt ætlaði að springa.

Ef mig minnir rétt, þá stendur á umbúðum þessara drykkja að það sé ekki mælt með því að börn undir 16 ára neyti þeirra. En ég held að það sé svo undir hverjum kaupmanni komið, hvort hann nýtir sér þetta og setji aldurstakmark. En hvaða kaupmaður vill minnka innkomu sína? 

Hálfs líters dós af orkudrykk, getur innihaldið allt að 160 mg. af koffíni! Settu það ofan í 9 ára barnið þitt! Útkoman verður ekki góð.

Þó það séu oftast krakkarnir sjálfir sem kaupa þessa drykki, þá eru einstaka foreldrar sem gera það líka. Það finnst mér með ólíkindum. Mér finnst líka með ólíkindum að sjá foreldra kaupa gos fyrir börn á leikskólaaldri, en það er önnur færsla út af fyrir sig.

Krakkar hér eru margir hverjir komnir með eigið debetkort 10 ára gömul. Foreldrar leggja einhverja peninga inn á kortið og fá svo eflaust lítið að vita í hvað peningarnir fara, ef þau þá spyrja. Hvenær hætta foreldrar að bera ábyrgð? Hvenær eru börnin komin með þroska og skynsemi til að ákveða sjálf hvernig þau eiga að nota peninga og hvað þau eiga að setja ofan í sig?

Ég segi fyrir mitt leyti, að mér finnst börn ekkert hafa með kort að gera fyrr en við 14 ára aldur. Og ég er á því að setja eigi a.m.k. 16 ára aldurstakmark á sölu orkudrykkja. 

En því skal hinsvegar haldið til haga, að álit mitt, þarf ekki að endurspegla mat þjóðarinnar! wink

 


Ofbeldiskonur

Það hefur verið margskrifað og talað um karlmenn sem beita andlegu og/eða líkamlegu ofbeldi. En það hefur hinsvegar farið minna fyrir umfjöllun um karlmenn sem verða fyrir ofbeldi, það virðist vera tabú, karlmenn eiga að vera sterkir, ekki kvarta, ekki vera "kelling".

Andlegt ofbeldi er svo mikið eitur, það getur dreift sér eins og illkynja krabbamein. Segjum sem svo að kona beiti manninn sinn andlegu ofbeldi og kúgun. Hún hreytir í hann ljótum orðum, brýtur hann kerfisbundið niður, að börnunum áheyrandi. Hún tekur ítrekuð æðisköst, aftur, að börnunum áheyrandi. Maðurinn verður svo kúgaður að hann tæplega nærist, hefur lítið sem ekkert mótstöðuafl, sjálfstraustið heyrir sögunni til og lífsgleðin sömuleiðis. Hann veit ekki hvað bíður hans næsta dag, hver dagur er rússnesk rúlletta. Börnin eru hætt að kippa sér upp við að mamma sé tryllt, í æðiskasti að öskra á pabba og að niðurlægja hann. Þetta er orðinn hluti af þeirra daglega lífi, eins sorglegt og það hljómar.

En það stoppar ekki þar. Hún eitrar... hún heldur áfram ofbeldinu með því að dreifa því til vinkvenna, mögulega fjölskyldu sinnar, sem og hans. Hann verður eins og vofa. Eina sem hann hefur til að lifa fyrir eru börnin. 

Hvert leitar þessi maður, sem er algjörlega brotinn? Hver tekur á móti þessum mönnum, bjargar þeim úr aðstæðunum, hjálpar þeim að byggja sig upp og veitir þeim sáluhjálp?

Konur geta leitað til Kvennaathvarfsins, í Konukot eða til Stígamóta. En þeir? Hvert fara þeir?

 

Ég þekki sjálf, persónulega, karlmenn, já í fleirtölu, sem verða fyrir andlegu ofbeldi af hálfu konu sinnar. Þó allt ofbeldi sé alvarlegt, þá er það mis alvarlegt. En vinir og fjölskyldur þessara manna sjá ofbeldið en geta lítið gert. Það er ekki hægt að hringja í lögreglu og láta handtaka konuna, né heldur að fjarlægja þá úr aðstæðunum, því eðli málsins samkvæmt, eru þessir menn ekki tilbúnir að skilja varnarlaus og viðkvæm börnin sín eftir í þessum aðstæðum, hjá þessum ofbeldiskonum. Karlmenn þora ekki í forræðisbaráttu gegn fyrrum konum sínum, því það er nánast tapað mál, réttur mæðra er slíkur. Einn þeirra sem ég þekki, fór frá konunni sinni og barðist fyrir börnunum sínum, barðist mikið og lengi en tapaði, þrátt fyrir læknaskýrslur og sannanir þess að börnunum væri ekki sinnt af móður sinni. Konur geta líka verið vondar!

Hefur þú heyrt um manninn sem fór frá ofbeldisfullu konunni sinni, með börnin og lifir nú hamingjusömu lífi sem einstæður faðir? Ekki? Eðlilega, því það hefur aldrei gerst!

Það þarf að vekja þessa umræðu og koma á fót einhverskonar karlaathvarfi, þangað sem menn geta leitað, með eða án barnanna sinna, fengið ókeypis ráðgjöf, vernd og aðra aðstoð.

 

Mig langar í lokin að setja hér slóð á grein eftir Dr Tara J. Palmatier, PsyD, í þýðingu Jóhönnu Magnúsdóttur. Þar má lesa ummerki um ofbeldi. 

https://johannamagnusdottir.com/2013/04/03/konur-sem-beita-ofbeldi/


Ófærð og hámhorf, allt eða ekkert.

Ég held að Bragi Valdimar hafi komið með orðið "hámhorf" fyrstur manna, a.m.k heyrði ég fyrst af því hjá honum. Þetta er fyrir þá sem ekki vita, íslenska þýðingin á "binge watching", eða þegar maður gleypir í sig marga þætti af ákveðinni seríu. Ég á þetta til, enda hef ég engan tíma í að skipuleggja líf mitt útfrá sýningartímum sjónvarpsþátta.

 

Það nýjasta, Ófærð, 2. sería. Baltasar... ég elska þig! Takk fyrir Ófærð!

En ég gerði þau mistök að hámhorfa þegar það er ekki einu sinni búið að sýna alla þættina. Við erum aðeins á eftir hér úti, svo núna er ég nýbúin að horfa á þátt nr. 8 og er alveg miður mín. Vantar sárlega að ræða framhaldið og samsæriskenningar við einhvern sem er jafn galinn og ég, líklega skilar sú leit ekki miklu laughing

Nú hangi ég í lausu lofti, og þarf að bíða í nokkra sársaukafulla daga eftir næsta þætti. Mæli því með að þegar maður ætlar að hámhorfa á spennuþætti, að bíða þar til serían er BÚIN! Nema þú sért eðlilegur einstklingur sem bara getir alveg beðið með ró.... en það er ekki ég.


ÚT MEÐ HATARA!!!! Til Tel Aviv!

S.l. ár, og ekki síst eftir að við fluttum erlendis, þá hefur ást mín á Eurovision dvínað lítið eitt. Kenni þar um tilbreytingaleysi, lélegu framboði af lögum og ofsalega fyrirsjáanlegum kosningum.

En í áááár folkens!!!!! 

Hljómsveitin HATARI kom, krafðist athygli og fékk hana. Ég hef aldrei verið hrifin af tónlist þar sem ég þarf textavél með söngvaranum, svona mjög hörðu rokki/dauðarokki, en eftir að hafa skoðað textann, þá fá fær HATARI mitt atkvæði, og kannski jafnvel 2! Ég er búin að heyra mikið talað um þetta lag og skiptist fólk alveg í tvær fylkingar, með eða yfirþyrmandi hneykslan "aðþettaskulihafaveriðleyft"!!

Ætli fólkið sem tilheyrir síðari flokknun hafi kynnt sér textann? Pottþétt ekki allir, mæli ég því með því að þeir/þær geri það hér með.

 

Textinn er ekki flókinn í smíðum, en segir það sem segja þarf. Ádeilan er skýr og nokkuð ljóst að textinn passar hvort um sé verið að ræða Ísland eða Jerúsalem. Spillingin fólk, spillingin!!

 

Hatrið mun sigra

Svallið var hömlulaust
Þynnkan er endalaus
Lífið er tilgangslaust
Tómið heimtir alla
 
Hatrið mun sigra
Gleðin tekur enda
Enda er hún blekking
Svikul tálsýn
 
Allt sem ég sá
Runnu niður tár
Allt sem ég gaf
Eitt sinn gaf
Ég gaf þér allt
 
Alhliða blekkingar
Einhliða refsingar
Auðtrúa aumingjar
Flóttinn tekur enda
Tómið heimtir alla
 
Hatrið mun sigra
Evrópa hrynja
Vefur lyga
Rísið úr öskunni
Sameinuð sem eitt
 
Allt sem ég sá
Runnu niður tár
Allt sem ég gaf
Eitt sinn gaf
Ég gaf þér allt
 
Allt sem ég sá
Runnu niður tár
Allt sem ég gaf
Eitt sinn gaf
Ég gaf þér allt
 
Hatrið mun sigra
Ástin deyja
Hatrið mun sigra
Gleðin tekur enda
Enda er hún blekking
Svikul tálsýn
 
Hatrið mun sigra

Einu sinni var...

"Gríman fellur", hljómar brjálæðislega dramatískt ekki satt? Hljómar næstum eins og fyrirsögn í DV, sem er svo alveg innihaldslaus.

Þetta blogg á ekki að vera einhver dramatík, síður en svo. En oft liggur mér margt á hjarta sem mér þykir gott að skrifa frá mér. Ég er alveg ný í þessum heimi, bloggheimi og á eftir að þreifa mig svolítið áfram í þessu, hversu miklu og persónulegu ég deili o.s.frv. 

En mér hefur fundist það reynast mér mjög "theraputic" (hvað er það á íslensku)? að skrifa hvernig mér líður og hvernig ég tekst á við hlutina, merkilegt hvar það gerir fyrir mann, a.m.k. mig.

Ég biðst fyrirfram afsökunar á því ef ég sletti mikið, og/eða kem með orð sem eru hreinn tilbúningur. Ég er búin að búa erlendis í nokkur ár og þó svo við tölum íslensku á heimilinu, þá höfum við öll tapað einhverju úr orðaforða okkar. Ég þarf reglulega að spyrja manninn minn "er þetta orð"?  

En lítillega um mig. Ég er fædd árið 1980, er gift og hef fætt af mér 2 börn. Maðurinn minn byrjaði í þessu á undan mér og á 2 börn fyrir. En þau eru fullorðin og búa ekki hjá okkur, þó svo stelpan hafi flust út til okkar, en hún nældi sér í kærasta og býr með honum, ekki langt frá okkur.

Ég á ættir að rekja til Snæfellsness, n.t.t. Rauðkollsstaða, en ég ólst upp í Hafnarfirði. Bernskuár mín, í skóla, voru ekki skemmtileg og sum hver þokukennd. Ég var aldrei vinsæli krakkinn, en gerði flest til þess að ganga í augun á þeim sem það voru, í von um að verða samþykkt. Það tókst ekki betur en svo að ég á ekki í neinu sambandi við þetta fólk í dag, þó ég sé ekki bitur á neinn hátt og er ekkert illa við neinn, mörg þeirra eru t.a.m. Fésbókarvinir mínir. En við áttum bara ekki samleið. En það átti bara við ótrúlega marga og gerir enn. Ég á ekki samleið með öllum, veit ekki hvað það er. Kannski er ég bara leiðinleg, má vera. Oftast hugsa ég ekkert út í það að ég hef verið vinalaus/lítil alla ævi, en suma daga svíður það rosalega mikið, ekki síst þegar ég sé myndir á Fésbókinni af vinkonuhópum fara í húsmæðraorlof, vera í fjölmennum saumaklúbbum, ganga á fjöll saman og hvaðeina. Þá finn ég fyrir einmannaleikanum.

Mér gekk aldrei sérstaklega vel í skóla, enda fannst mér ég vera heimsk. Ég ólst upp við það að finnast ég vera heimsk, þar til að árið 2013, að ég var greind með ADHD án ofvirkni. Mikill athyglisbrestur og alveg á mörkum þess að vera greind með OCD líka. Ég brotnaði saman í lokaviðtalinu þar sem mér var kynnt greiningin. "Er ég þá ekki vitlaus" var það fyrsta sem ég sagði.

Ég prófaði lyf, en mér fannst þau ekki gera neitt fyrir mig. Hef ekki reynt önnur lyf síðan þá.

En það breytist fljótlega. 

Fyrir u.þ.b. þrem árum, eða fjórum, greindist ég svo með vefjagigt. Hún hrjáir fólk á mismunandi hátt en ég verð undirlögð af verkjum í handleggjum, úlnliðum, fingrum, ökklum, hnakka og herðum. Eftir margskonar tilraunir, fann læknirinn lyf sem virkar fyrir mig. Svo oftast er ég alveg ágæt, en ég berst sífellt við síþreytu og orkuleysi, sem og svefnleysi.

Eins og þeir sem þekkja til vita, reyna veikindi ekki bara líkamlega á fólk, heldur andlega líka. En ég hef verið þunglynd bara frá því ég var krakki. Stóð alltaf illa félagslega og þar byrjaði þetta. Svo fékk þetta bara að "blómstra" í gegn um árin. En það er mikilvægt að þekkja veikleika sína og viðurkenna veikindi sín. Andlegu og líkamlegu veikindi mín meiða mig jafn mikið, eru jafn erfið viðureignar og jafn mikilvæg. Afhverju á ég þá eitthvað að vera feimnari að tala um andlegu veikindin? Þetta er tabú sem mér finnst samt vera á undanhaldi, vonandi heldur fólk áfram að opna sig með þetta.

En ég held ég láti þetta duga sem fyrstu færslu. Ég veit að hún er rosa löng, ætli nokkur maður nenni að lesa svona langt. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband