Rangir áhrifavaldar.

Ég las einhversstaðar grein fyrir u.þ.b. 2 vikum, um áhrifavalda í íslensku samfélagi og spurt var hvort maður þekkti fólkið.

Ég held að ég hafi ekki þekkt neinn. Allt í lagi, kannski ekki alveg að marka, þar sem ég hef búið erlendis í á fimmta ár, en ég fylgist nú eitthvað með því sem gerist á Íslandi. Mig minnti að fyrirsögnin hafi verið "Íslenskir áhrifavaldar á samfélagsmiðlum", eða eitthvað í þá áttina en mér reynist býsna erfitt að finna þessa grein. En, við að renna í gegn um myndir af þessum svokölluðu "áhrifavöldum", þá blöskraði mér eiginlega. Mikið af, eflaust hæfileikaríkum konum, voru þarna á mynd sem flestar hafa tekið sjálfar og mér fannst þær flestar stilla sér upp eins og þær væru að sitja fyrir í erótísku tímariti. "Duckface", brjóstum þrýst út, maginn inn, bogið bak og rassinn út. Eins og þetta sé það eina sem þær hafi til brunns að bera.

Ohh... ég varð svo pirruð. Þetta er EKKI áhrifavaldurinn sem ég vil hafa í lífi minna barna. Þar sem verið er að rembast við að passa inn í eitthvað glanstímarit, allar þurfa að vera með brjóst í minnst C skál, ekta eða gervi, þrýstnar varir, annars er ekkert mál að bara sprauta í varirnar o.s.frv. Og nú virðist nýjasta "trendið" vera að opinbera sig um allar fegrunaraðgerðirnar sem fólk hefur farið í og sýna gervilega ýkt andlit. Sumt af þessu fólki finnst mér frekar eiga heima í þáttum sem heita "Botched Up". Mér finnst þetta svo sorgleg þróun.

Tölvunotendur eru sífellt að verða yngri og yngri. Auglýsingar með "eye catching" myndum stökkva upp á skjáinn, börn heillast, smella og litlir svampheilar drekka í sig upplýsingar um það hvernig maður á að vera, á að gera, á að borða, á ekki að borða, nýjustu kúrana og "trendin" í dag og allt eftir því.

Ungar stelpur keppast við að passa inn í þetta A4 form sem samfélagið hefur sniðið þeim. Föt eru orðin svo efnislítil að það væri nærri lagi að segja þau sem bætur heldur en heila flík. Pils og kjólar eru oft rétt svo í snípssídd. Vonandi þurfa þessar konur aldrei að beygja sig eftir neinu. Hvað er markmiðið hér? Svo heyrir maður, æj svona er þetta bara í dag, svona er þróunin blah blah blah... Við sjáum líka hvernig þróunin í umhverfismálum er, það þýðir ekki að við eigum bara að spila með og henda öllu plasti í sjóinn! Þetta þarf að stoppa! Hvernig? "Who am  I to know"?

#Barnaskref! T.a.m. hefur dóttir mín mjög gaman af Youtube. Ég setti læsingu á það, svo að hún hefur ekki aðgang að efni sem þykir of gróft, dónalegt o.s.frv. Tónlistarmyndbönd eru einn svakalegur áhrifavaldur og geta farið langt yfir velsæmismörk.

Fyrst var hún fúl yfir því að hún sæi ekki lengur hin og þessi tónlistarmyndbönd en svo var það gleymt og grafið. Nú er það bara "Just Dance" og dansað og sungið, á milli þess sem hún er úti.

#Verum fyrirmyndin. Barn sem horfir á foreldri sitt líta í spegil og bölsótast yfir eigin útliti, tekur þá litlu aðgerð sem fullorðni einstaklingurinn man svo varla eftir og vistar þetta í minni sínu.

#Ekki hugsa um hvað aðrir eru að hugsa. Leiktu þér og sjáðu barnið þitt blómstra af gleði. Dóttir minni þykir fátt fyndnara en þegar ég sæki hana í skólann og frá sitthvorum endanum af leikvellinum byrjum við að valhoppa á móti hvor annarri, 6 ára barnið og 38 ára konan! Vinkonum hennar þykir líka mjög fyndið þegar ég hoppa inn í "snú-snú". Maður er aldrei of gamall til að leika sér! 

Ég er ekki með neina töfralausn, en ég kann nokkur skref og ef allir kunna nokkur skref og deila því með hinum, þá gæti það verið byrjun á betri lífsleið fyrir börnin okkar.

Vertu memm!

 

14-year-old-teens-then-vs-now


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband